Lesa marglyttur blöðin?
30.11.2009 | 12:27
Ég stóð í þeirri trú að hin margboðaða hnatthlýnun hefði enn sem komið er mælst aðallega í fjölmiðlum. Þess vegna kom það mér á óvart að þessar marglyttur hefðu í tilefni þessarar hnatthlýnunnar aukið kyn sitt með slíkum tilþrifum að skipaskaði yrði af. Við nánari lestur um þessar marglyttur komst ég að því mér til mikils léttis að stærð þessara marglyttna hefði ekkert með hnatthlýnun að gera, því ég var farinn að sjá fyrir mér marglyttur á stærð við flugmóðurskip þegar hnatthlýnunin berst af síðum æsifréttablaðanna í höf jarðar. Þessar marglyttur eru bara svona stórar, líka í venjulegu árferði. Hjúkk.
En það virðist samt ekki setja nein takmörk við gáfur þessara skepna. Þær eru vel að sér um umhverfismál og virðast hafa tekið forystuna í að hagnýta sér boðaða hnatthlýnun. Kannski ættu fjölmiðlar að fara varlegar í þessum fréttaflutningi sínum ef vera skyldi að fleiri dýrategundir liggi á hleri og bíði eftir tækifæri til þess að koma á okkur höggi. Svo ekki sé talað um náttúruöflin. Og hvað ef þessi hnatthlýnun skyldi ekki koma eins og efndir standa til? Þá má væntanlega reikna með því að þessar marglyttur fari í mál við okkur og krefji okkur um skaðabætur. Nei, ég tel að við ættum að halda kjafti um þessa hnatthlýnun og spara okkur svona vandræði og koma frekar heiminum á óvart með raunverulegri hnatthlýnun. Við missum alveg okkar "element of surprise" ef verið er að gaspra þetta í tíma og ótíma út um allar trissur. Veggirnir hafa eyru. Marglyttur lesa blöð.
Risamarglyttur ógna japönskum sjávarútvegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.